usl.annáll.is

AnnállFjölskyldaGuðfræðiMaturPrédikanirSamfélag

« Fiskisögur · Heim · Hvernig líður börnunum okkar? Bloggað í beinni »

Föstudagspizza með múskat-spínati og eggjum

Árni og Kristín @ 13.57 13/2/10

Spínatpizza á föstudegi

Í gær bökuðum við pizzur. Börnin fengu að velja sér álegg og það sem heillaði þau var pizza af einföldustu gerð, þ.e.a.s. með sósu og osti. Það heitir á fagmálinu pizza margarita.

Fyrir fullorðna fólkið var gerð uppskrift sem Kría lærði af matgæðingunum Dagnýju og Gunnari í Nökkvavogi. Þau segja að hún sé nákvæm replica af pizzu sem var seld á veitingastað á High streetinu þeirra í Birmingham þar sem þau bjuggu fyrir nokkrum árum.

Þetta er að okkar mati ein besta pizza sem hægt er að töfra fram í eigin eldhúsi og í gærkvöldi lukkaðist hún fullkomlega. Hér er lýsing á þessari unaðslegu flatböku.

Botn flattur út og látinn taka sig. Best að nota botn sem maður er sáttur við og er góður á bragðið og þægilegur að vinna með.

Á botninn er breidd sósa. Sósan sem við notum er tómatmauki hrært út með maukuðum tómötum úr dós og krydduð.  Ofan á sósuna er breitt spínat sem hefur verið steikt í smjöri og kryddað með múskati og sjávarsalti. Múskatið er esse en það þarf að umgangast af virðingu því það gefur mikið bragð.

Ofan á spínatbreiðuna leggjum við saxaða Flúðasveppir. Þá er rifnum osti stráð á herlegheitin. Næst eru settar tómatsneiðar og ofan á tómatsneiðarnar mozarella ostur.

Svona er pizzunni stungið inn í heitan ofn og hún nærri fullbökuð. Örfáum mínútum áður en pizzan er tilbúin er hún tekin út og holur búnar til á nokkrum stöðum. Í holurnar eru brotin egg og pizzunni skellt í ofninn aftur.

Þegar eggin hafa bakast er pizzan tilbúin. Þetta er uppáhaldspizzan okkar.

url: http://usl.annall.is/2010-02-13/fostudagspizza-med-muskat-spinati-og-eggjum/


© usl.annáll.is · Færslur · Ummæli