usl.annáll.is

AnnállFjölskyldaGuðfræðiMaturPrédikanirSamfélag

« Föstudagspizza með múskat-spínati og eggjum · Heim · Ecclesiological significance of grief – or forbidden feelings in the funeral »

Hvernig líður börnunum okkar? Bloggað í beinni

Árni Svanur @ 09.54 19/2/10

, , , , , , , , , , ,

Málþing um stöðu barna í Keflavíkurkirkju

Nú stendur yfir málþing í Keflavíkurkirkju þar sem rætt er um börnin okkar, þroska þeirra og stöðu við þeirra við sambúðarslit og skilnað foreldra. Þetta er mikilvægt efni. Málþingsgestir eru rúmlega 50 (þeim fjölgaði eftir því sem leið á málþingið) og dagskráin er áhugaverð. Fyrstur tók til máls dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, sem setur málþingið. Hann gerir grein fyrir bakgrunni verkefnisins.

Geir Gunnlaugsson: Kreppa, börn og fjöskyldur

Fyrsti frummælandi er Geir Gunnlaugsson, landlæknir. Yfirskrift erindis hans er „Kreppa, börn og fjölskyldur“. Hann ætlar að ræða um snemmþroska og það hvernig efnahagsaðstæður geta haft áhrif á þroska barna. Fyrsta glæran sem hann sýnir er mynd af fóstri í móðurkviði.

Geir spyr: Hvaða þættir geta haft áhrif á barnið, strax í upphafi og svo á fyrstu árunum. Streita. Félagslegar aðstæður. Inntakið er kannski þetta: Það eru margir samverkandi þættir sem koma saman og hafa áhrif á þroska og líðan.

Ef við ræktum ekki strax í upphafi jákvæðan þroska þá hefur það áhrif til framtíðar. Annars líður barnið.

Þroski barna á fyrstu æviárunum byggir á samspili nokkurra þátta:
- Menntun
- Heilsa
- Félagsauður
- Jafnrétti

Geir spyr: Getur hagvöxtur orðið án mannauðs?

Á móti mætti spyrja: Er hagvöxtur mikilvægasti mælikvarðinn? Hvers vegna ætti hann að hafa miðlæga stöðu í sambandi við samfélagið okkar?

Geir bendir á að ójöfnuður er einn af grundvallarþáttunum í heilsu einstaklinga. Ójöfnuður í samfélagi hefur m.ö.o. bein áhrif á heilsufar! Undirliggjandi spurning hjá honum er þessi: Hefur kreppan áhrif á heilsu barna? Stuðlar hún að dauðsföllu barna? Í því sambandi bendir hann á að horfa megi til beinna áhrifavalda (t.d. sjúkdómar), óbeinna orsaka (staða heilbrigðiskerfis) og undirliggjandi orsaka (fátækt, ójafnrétti, umhverfisbreytingar, efnahagsaðstæður).

Hann spyr líka: Er líklegt að kreppan hafi áhrif á sálræna líðan íslenskra barna? Það eru margir þættir sem hafa áhrif á sálræna líðan barna og margir félagssálrænir þættir koma til sem hafa áhrif, s.s. streita, reiði o.s.frv. En það eru aðrir þættir sem geta haft jákvæð áhrif, s.s. stolt. Þetta getur m.a. birst í fleiri komum til hjúkrunarfræðinga í skólum.

Eitt módel til að lýsa áhrifum efnahagskreppu á heilsu gengur út á að skoða samspil efnahagsþrenginga sem leiða til efnahagslegs þrýstings sem hefur áhrif á geðheilsu feðra og mæðra sem hefur áhrif á samspilið innan og/eða samskipta innan fjölskyldna sem getur haft áhrif á gæði umönnunar sem hefur áhrif á geðheilsu barna og heilsu þeirra. Þetta má svo bera saman við geðheilsu og heilsu barna fyrir efnahagskreppu. Þetta módel byggir á greiningu sem var unnin eftir efnahagskreppu í Bandaríkjunum upp úr 1980 og það var svo notað og skoðað frekar í tengslum við efnahagskreppuna í Finnlandi á níunda áratugnum.

Geir bendir á að aðdragandi hjónaskilnaðar er oft erfiður tími. Hann bendir líka á að börn sem hafa búið við átök á heimili eiga oft erfitt: Sýna kvíðaeinkenni, hafa veikari sjálfsmynd, sýna þunglyndiseinkenni. Hvernig er hægt að bregðast við? Geir bendir líka á að þetta er mikilvægur aldur, það skiptir máli að bregðast hratt við, bregðast strax við, en bíða ekki.

Hann vitnar í Heckman sem er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sem hefur reiknað út að við þurfum að einbeita okkur að yngstu börnunum. Fjárfesta í þeim. „Rate of return to investment in human capital“ er yfirskriftin á glærunni. Það væri fróðlegt að skoða þetta í sambandi við það hvernig við erum að forgangsraða í mennta- og heilbrigðiskerfinu okkar. Hvaða einkunn fáum við fyrir það í ljósi þessa mælikvarða?

Benedikt Jóhannsson: Börn og skilnaður. Hvað vitum við? Hvert stefnum við?

Benedikt er sérfræðingur í klínískri sálfræði. Hann er sérfræðingur á Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Tíðni skilnaða jókst verulega á Vesturlöndum á 20. öld. Vex hratt hér á landi frá 1960-90. Hefur staðið í stað síðan. Ekki rétt að þetat sé alltaf að aukast og tíðnin er lægri hér á landi en í nágrannalöndunum.

Í þessu sambandi myndi ég vilja spyrja: Hvaða breytingar hafa orðið á sambúðarformum á sama tímabili? Er sama hlutfall þjóðarinnar sem gengur í hjónaband? Hvernig kemur það inn í þetta hlutfall? Hvað með annað

Önnur spurning sem kviknar hjá okkur er sú hvaða líkingamál við notum til að ræða um hjónaskilnaði. Er skilnaður strand? Er skilnaður björgunaraðgerð? Hvað er skilnaður?

Hvað með ástina? Hvað er ást spyr Benedikt og segir: Ást er afstaða.

Hann spurði líka: Eru skilnaðir áhyggjuefni. Í því sambandi benti Benedikt á að aðstæður væru ólíkar. Ef samskipti eru meiðandi er skilnaður útgönguleið og hann lagði líka áherslu á að vonbrigðin og áfallið vegna vandamálanna geta komið fyrr.

Athyglisvert er að 87% ungmenna í framhaldsskóla sögðu skilnaðinn aðallega föður sínum að kenna.

Annað athyglisvert: Áhrifin eru mest fyrst, en minnka eftir það. Lykilatriði varðandi áhrif skilnaðar á börn eru samkomulag foreldra, heilbrigði foreldra, tengsl við báða foreldra, fjárhagur. Einnig að skilnaður getur verið léttir ef deilurnar eru miklar! Augljóslega fyrir foreldrana, en einnig fyrir börnin. Áhrifin eru almennt séð minni nú en áður og líklega tengist það því að þetta er orðið algengara og viðurkennt af samfélagi. Það þýðir kannski að nú eru heilbrigðari foreldrar að skilja.

Líðan barna eftir fjölskylduaðstæðum: Börn hjá einstæðum mæðrum líður vel, hjá einstæðum feðrum eru í viðkvæmri stöðu, stjúpmóðir hefur verndandi áhrif, en stjúpfaðir ekki jafn mikil. Mikilvægt er að báðir foreldrar séu virkir í uppeldi og stuðningi, en ef ágreiningur er mikill getur verið æskilegt að takmarka umgengni.

Stefnan er sú að leggja áherslu á sameiginlega forsjá og jafna ábyrgð foreldra. Það leiðir til aukinnar ánægju báðra foreldra. Feður eru að taka meiri og virkari þátt. Einnig jafnari samvistir með börnunum. Jöfn búseta algengari – 24% skv. könnun frá 2008 – oftast vika og vika. Þetta er ný þróun sem er að gerast mjög hratt. Hefur verið umdeilt fyrirkomulag, meðal fræðimanna og almennings. Þetta þarf að kanna betur og Benedikt er að leggja drög að því að fá slíkar upplýsingar.

Forsenda jafnrar búsetu er að stutt sé á milli heimila og gott samkomulag sé milli foreldra, en barnið þarf líka að vera sátt. Þetta þróast oft í að barnið búi meira hjá öðru foreldrinu. Hitt er svo annað mál að jöfn umgengni og mikil umgengni virðist leiða til sömu gæða. Kannski er kjarninn í þessu máli sá að börn sem umgangast foreldra sína mikið eru í betri stöðu en þau sem ekki gera það.

Gallar við jafna búsetu: Getur leitt til rótleysis, grynnri tengsla, brotakenndari tengsl við vini o.s.frv.

Sólveig Sigurðardóttir: Búseta barna

Undanfarna áratugi hefur samsetning fjölskyldna breyst. Hún vann rannsókn á högum einstæðra foreldra á Ásbrú/Keili í Reykjanesbæ. Skoða lífsgæði og fjölskylduaðstæður. Ein af niðurstöðum rannsóknarinnar er að umgengnismynstur breytast eftir fjölskyldugerðum. Umgengni er meiri þegar báðir foreldrar eru einstæðir en þegar annað foreldri eða bæði hafa myndað stjúpfjölskyldur.

Sólveig vann líka rannsókn á aðstæðum tíu fráskilinna foreldra sem eiga hvert fyrir sig eitt barn á aldrinum 6-8 ára. Flest þeirra eru með viku-viku fyrirkomulag á umgengni. Hjá þeim var jafnræði í uppeldi og hlutverkum fyrir skilnað. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hver er reynsla og sýn þeirra á jafna búsetu barna hjá foreldrum eftir skilnað.

Góð samskipti og samvinna eru forsenda jafnrar búsetu, þessir foreldrar mættu saman á foreldrafundi, litlu á uppeldið sem samvinnuverkefni. Töldu öll að jöfn búseta hentaði þeim best. Vildu skapa jákvæða umræðu og ímynd jafnrar búsetu í samfélaginu (Sólveig spurði í því sambandi hvort greina mætti ákveðin fegrunaráhrif). Mesta breytingin á lífi barnanna verður þegar fjölskyldugerðin breytist, þ.e. þegar foreldrarnir fara í nýtt samband. Spurning hvort sátt og samlyndi foreldra við uppeldi veldur / olli ruglingi hjá börnunum sem leiðir til þess að þau telja að foreldrar geti tekið saman aftur.

Niðurstöður rannsóknar: Jöfn búseta hefur ekki áhrif á gæði tengsla foreldra og barns. Foreldrar verða eigingjarnarni á eigin tíma með barninu sem getur haft áhrif á samvistir og tengsl barns við aðra fjölskyldumeðlimi. Getur leitt til streittara fjölskyldulífs?

Ætla má, segir Sólveig, að þrátt fyrir samkomulag og samvinnu, geti það verið álag fyrir ung börn að fara milli heimila aðra hverja viku.

Hvaða þættir þurfa að vera til staðar:

  1. Góð foreldrasamvinna
  2. Sterk tengslamyndun barns við báða foreldra, sérstaklega við feður.
  3. Jafnræði í hlutverkum foreldra fyrir og eftir skilnað.
  4. Foreldrar búsettir nálægt hvort öðru.
  5. Góð aðlögunarhæfni barns.

Í umræðum kom fram ábending um að þessi rannsókn væri mikilvæg og að hana mætti endurtaka með sama hópi eftir nokkur ár til að bera saman reynsluna, einkum m.t.t. skólagöngu.

Steinunn Anna Sigurjónsdóttir: Áfram ábyrg

Markmið verkefnisins var að þróa hópastarf með börnum sem hafa reynsl af sambúðarslitum og skilnaði foreldra. Sjö börn tóku þátt í námskeiðinu. Markmið námskeiðsins var að börnin fyndu það jákvæða í aðstæðum sínum, að skoða hvernig þeim gæti liðið betur með breyttri sýn á aðstæður þeirra, að efla þau í að tala um líðan sína, að draga úr einangrun og læra af reynslu annarra sem deila reynsluni og að fræða um aðstæður sem oft koma upp í kjölfar sambúðarslita og skilnaðar.

Hvað getum við lært af námskeiðinu?

Það hentar kannski betur fyrir börn sem eru tíu ára og eldri, mögulega væri æskilegt að skima fyrir börnum sem eru í greinanlegum erfiðleikum í kjölfar sambúðarslita/skilnaðar. Um leið er æskilegt að skoða samskipti foreldranna, ef vandinn liggur hjá þeim frekar en börnunum er ekki æskilegt að börnin séu send á svona námskeið nema foreldrar séu samhliða á námskeiði. Æskilegt er að velja þátttakendur inn á námskeiðið í/með viðtali við foreldra og barn.

Eitt af því sem kom fram á námskeiðinu var að börnunum þykir mikilvægt að hlustað sé á þau.

Þetta verkefni fékk stuðning úr héraðssjóði Kjalarnessprófastsdæmis og fleiri sjóðum. Mikil þekking hefur orðið til og það er vilji til að halda slíkt námskeið aftur, jafnvel mjög fljótt, ef stuðningur fæst í það. Þetta

Ásgeir Eiríksson: Fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum barnalaga um forsjá, búsetu, meðlag og umgengni

Barnalög fjalla um samskipti foreldra og barna, þar er m.a. rætt um hlutverk foreldra, feðrun barna og málsmeðferðar- og efnisreglur í málefnum barna. Horft var Barnasáttmála SÞ það er mannréttindasamningur sem var fullgiltur hérlendis 1992. Þetta er sá mannréttindasamningur sem hefur verið staðfestur af 192 þjóðum.

Í 1. grein barnalag er að finna ákvæði um meginreglur barnasáttmálans. Þar er kveðið á um rétt til lífs, þroska, verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur og þroska. Meðal annars er kveðið á um að bannað sé að beita barn hvers kyns ofbeldi – kynferðislegt, andlegt, líkamlegt. Þarna er grátt svæði – er það t.d. andlegt ofbeldi að stjórna börnum með öskum og hávaða?

Hlutverk foreldra er m.a. að temja barni iðjusemi og siðgæði, vernda það gegn ofbeldi og vanvirðu, sýna því umhyggju og virðingu. Hafa ber samráð við barnið um málefni þess eftir því sem aldur og þroski gefur tilefni til. Þróunin er sú að taka meira tillit til þess sem barnið vill sjálft.

Sáttameðferð er að verða viðtekin venja: Sýslumönnum ber að leita sátta með aðilum áður en unnt er eð krefjast úrskurðar eða höfða dómsmál um tiltekin efni.

Helstu sjónarmið í málefnum um forsjá eða lögheimili eru hæfi foreldra, stöðugleiki í lífi barns, tengsl þess við báða foreldra, hvernig þau tryggja umgengni við hitt foreldrið, hætta á ofbeldi gagnvart barninu eða öðrum heimilismönnum, vilji barnsisns, aldur og þroski.

Umgengni er skilgreind upp á nýtt. Hingað til hefur hún vísað til samveru, en nú er litið til annarra samskipta, s.s. tölvusamskipta og símasamskipta. Einnig er horft til kostnaðar við umgengni, sýslumaður getur úrskurðað um hana í hlutfalli við tekjur eða aflahæfi.

Töluverðar breytingar eru einnig gerðar á meðlagskerfinu. Gengið er út frá því að foreldrar geti samið um þetta sín á milli. Lágmarks- og aukið meðlag er afnumið, en gengið er út frá því að skipta kostnaði eftir tekjum foreldra. Til eru viðmið um slíkt frá nágrannalöndunum. Framfærslukostnaður fullorðinna eru 180000 á mánuði, kostnaður barns eru 0,3 af því sem eru 54000 á mánuði. Hlutur hvors fyrir sig er útfærður í samræmi við mismun á launatekjum og svo er dregið frá eftir umgengni. Meðlag er eingöngu reiknað út frá tekjum kynforeldra.

Dómsmálaráðuneytið hefur ekki enn gert þessi frumvörp að sínum, þau eru aðgengileg á vef Alþingis og þar er hægt að koma athugasemdum að. Gert er ráð fyrir gildistöku 1. október 2011, en hann telur að það gæti orðið síðar.

Þórólfur Halldórsson: Hlutverk sýslumanns

Hann nefndi í upphafi vefinn syslumenn.is þar sem er að finna gagnlegar upplýsingar um einstök verkefni sýslumanna. Hægt er að afgreiða mál hjá sýslumönnum þegar ekki er ágreiningur um málefni. Ármann Snævarr er mentor íslenska hjúskaparréttarins og Þórólfur vitnar í hann. Hann gaf út ritið Hjúskapar- og sambúðarréttur fyrir tveimur árum.  Þar ræðir hann meðal annars um það grundvallarviðmið að fara með gát þegar kemur að þessum efnum.

Þar með lauk málþinginu.

Þessi færsla var blogguð í beinni sem getur leitt til ákveðinnar ónákvæmni í framsetningu, en gefur innsýn í það sem fór fram á málþinginu.

url: http://usl.annall.is/2010-02-19/hvernig-lidur-bornunum-okkar-bloggad-i-beinni/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Ólafur Jóhann @ 21/2/2010 18.14

Takk fyrir þetta – það er gott að vita af þessu hér. Þetta var afskaplega fróðlegt málþing og haldið af góðu tilefni.


© usl.annáll.is · Færslur · Ummæli